Ákveðið hefur verið að Sif Gunnarsdóttir taki við embætti forsetaritara í vor þegar Örnólfur Thorsson hverfur til annarra starfa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Forsætisráðuneytinu.

Sif er með B.A.-próf í danskri tungu og bókmenntum frá Háskóla Íslands og meistarapróf í menningarmiðlun frá Háskólanum í Óðinsvéum auk þess sem hún lauk diplómanámi í rekstrarhagfræði við Háskóla Íslands árið 2006.

Hún var forstöðumaður Höfuðborgarstofu árin 2007-2013 og forstöðumaður Norræna hússins í Færeyjum á árunum 2013-2018 en einnig hefur hún fengist við kennslu og dagskrárgerð fyrir hljóðvarp. Sif starfar nú sem skrifstofustjóri menningarmála á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar.

Embætti forsetaritara var auglýst fyrir áramót og sóttu sextíu um starfið. Ráðgefandi hæfnisnefnd, skipuð af forsætisráðherra, vann úr umsóknum, tók viðtöl, aflaði umsagna og skilaði svo greinargerð til forseta og forsætisráðherra eftir að umsækjendum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana.