Umhverfisstofnun hefur sent staðfestingu á friðun jarðar í eigu Sifjar Konráðsdóttur aðstoðarmanns Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra á borð til ráðherrans að því er Fréttablaðið greinir frá.

Sif segir sjálf ekki telja ráðherrann vanhæfan til að taka ákvörðun um friðlýsinguna, þó hún sé undirmaður hans, en hún berst gegn því að Blöndulína fari í gegnum jörðina.

Mun Guðmundur Ingi því þurfa að taka afstöðu til þess hvort af friðun jarðarinnar, Hólar Í Öxnadal, sem Sif og eiginmaður hennar, Ólafur Valsson eiga. Hafa þau barist fyrir því allt frá árinu 2013 að ekki verði farið í gegnum jörðina, þar sem þau stunda skógrækt, með svokallaða Blöndulínu 3, háspennulínu frá Blönduvirkjun.

„Þetta mál hefur ekki verið tekið fyrir eftir að ég kom inn í ráðuneytið,“ segir Guðmundur Ingi. „Ég hef ekki farið yfir það en í svona málum er hvert og eitt mál metið. Ef einhverjar líkur eru á vanhæfi eða ástæða þykir til að skoða vanhæfi þá mun stjórnsýslan fara yfir það.“

Að mati Landsnet er gamla byggðalínan frá Blöndu til Akureyrar ekki nógu sterk, og hefur allt frá árinu 2008 verið á teikniborðinu hjá félaginu ný lína til að styrkja flutningskerfi raforku á svæðinu, sem er í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála um að tryggja raforkuöryggi í landinu.