SÍF hf. hefur selt 55% hlut í dótturfélagi sínu, Iceland Seafood International ehf., sem stofnað var um hefðbundið sölu- og markaðsstarf félagsins með sjávarafurðir. Kaupandi hlutarins er fjárfestingafélagið Feldir ehf. er í eigu Mundils ehf., sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, Benedikts Sveinssonar, Kristjáns Þ. Davíðssonar, Bjarna Benediktssonar og Hjörleifs Jakobssonar.

Salan á Iceland Seafood International ehf. og Tros ehf. er liður í stefnumörkun SÍF þess efnis að skilja að fullvinnslu félagsins annars vegar og hefðbundið markaðs- og sölustarf með sjávarafurðir hins vegar og skerpa þar með áherslur í starfseminni segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

SÍF hefur jafnframt selt allan eignarhlut sinn í Tros ehf. í Sandgerði sem er sérhæft í útflutningi á ferskum sjávarafurðum. Tros ehf. verður dótturfélag Iceland Seafood International. Salan hefur óveruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu SÍF hf. Fyrirvari er gerður um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Við söluna á 55% hlut í Iceland Seafood International verður félagið hlutdeildarfélag SÍF hf. og hverfur úr samstæðureikningsskilum félagsins. Samhliða lækka vaxtaberandi skuldir samstæðunnar um 63 milljónir evra sé miðað við síðustu áramót en heildareignir Iceland Seafood International voru þá ríflega 105 milljónir evra. Áætluð áhrif á EBITDA SÍF hf. vegna sölu Iceland Seafood International og Tros er tæplega 5 milljónir evra á ári.

Forstjóri Iceland Seafood International verður Kristján Þ. Davíðsson, áður forstjóri Granda hf. og aðstoðarforstjóri HB Granda ehf. Benedikt Sveinsson, áður forstjóri Iceland Seafood Corporation í Bandaríkjunum, verður stjórnarformaður félagsins.

Samhliða kaupunum á Iceland Seafoood International hafa tekist samningar milli nýrra eigenda og eigenda fiskútflutningsfyrirtækisins B. Benediktsson ehf. um sameiningu félaganna undir nafni Iceland Seafood International ehf. Mun Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri B. Benediktsson ehf. og annar aðaleigandi, leiða saltfisksölu hins sameinaða fyrirtækis.

Það er markmið nýrra eigenda að stjórnendur og starfsmenn komi að eignarhaldi félagsins og hafi þannig skýran hag af velgengni þess.

Að loknum fyrirhuguðum eignarhaldsbreytingum er gert ráð fyrir að eignarhald Iceland Seafood International verði í stórum dráttum með þeim hætti að Fjárfestingafélagið Feldir ehf. eigi 55% , SÍF hf. 25% og starfsmenn 20%.

Eftir þessar breytingar verður Iceland Seafood International með veltu upp á tæpar 400 milljónir evra og um 250 starfsmenn. Félagið stundar umfangsmikið markaðs- og sölustarf með ferskar, frystar og saltaðar sjávarafurðir víðs vegar um heim og er með starfsstöðvar á Íslandi, í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen, Póllandi, Grikklandi, Kanada, á Ítalíu og Spáni segir í tilkynningunni.

Með sölunni á Iceland Seafood lýkur því verkefni sem Örn Viðar Skúlason hefur leitt frá árinu 2003, það er rekstur, umbreytingu og aðskilnað á hefðbundinni markaðs- og sölustarfsemi SÍF hf. fyrir sjávarafurðir. Á þeim tíma hefur sölukerfið verið einfaldað til muna og markaðssetning og hefðbundin sala sjávarafurða dregin saman í eitt sérhæft félag undir merkjum Iceland Seafood.