SÍF hf. hefur selt dótturfélag sitt, Saltkaup hf. Kaupandi er hópur fjárfesta undir stjórn Jóns Rúnars Halldórssonar, framkvæmdastjóra Saltkaupa. Kaupin miðast við 29. apríl 2005. Söluhagnaður SÍF vegna viðskiptanna er um 1,5 milljónir evra og færist á öðrum ársfjórðungi 2005. Fyrirvörum vegna áreiðanleikakönnunar og fjármögnunar hefur verið aflétt. Áhrif sölunnar á EBITDA SÍF-samstæðunnar eru óveruleg eða um 0,7 milljónir evra miðað við áætlanir 2005 segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Salan á Saltkaupum er liður í umfangsmikilli endurskipulagningu SÍF-samsteypunnar, sem staðið hefur yfir frá því á síðasta ári. Fyrir skömmu seldi SÍF hf. 55% hlut í Iceland Seafood International ehf. og 100% hlut sinn í Tros ehf. Þessir samningar eru allir í samræmi við þá stefnu SÍF að skerpa áherslur í starfseminni með því að selja frá sér eignir og rekstur sem ekki tilheyrir kjarnastarfsemi félagsins.

Að teknu tilliti til sölu á þessum þremur félögum má gera ráð fyrir að nettóvelta SÍF-samstæðunnar á árinu 2005 verði um 570 milljónir evra og EBITDA á bilinu 55-60 milljónir evra. Jafnframt að vaxtaberandi skuldir miðað við stöðu um síðustu áramót geti lækkað um ríflega 75 milljónir evra.

Starfsemi SÍF í dag snýst um framleiðslu, sölu og markaðssetningu á fullunnum matvælum. Meginstarfsemi félagsins er í þremur löndum.