Tekjur vegna tónlistar sem er streymd á netinu munu aukast um 40% og skila inn 696 milljónum sterlingspunda á heimsvísku í ár. Jafngildir það um 130 milljörðum króna. Er þetta niðurstaða nýrrar könnunar, sem framkvæmd var af fyrirtækinu Strategy Analytics sem fylgist með tónlistariðnaðinum.

Í frétt BBC segir að streymd tónlist sé sá hluti tónlistargeirans sem vex hvað hraðast um þessar mundir, en gert er ráð fyrir um 8,5% vexti í ár. Þýðir það að tekjur vegna streymdar tónlistar verða meiri en af beinu niðurhali á tónlist.

Sala á geisladiskum og vínýlplötum er þó enn stærsti hluti geirans og eru um 61% allrar seldrar tónlistar á diskum eða plötum. Mikill samdráttur hefur hins vegar orðið þarna og dróst sala á plötum og diskum saman um 12% á heimsvísu og um ein 30% í Bretlandi.

Í fréttinni segir að tekjuaukning hjá áskriftartónlistarþjónustum á netinu jókst um 93% í Bretlandi á fyrstu þremur mánuðum ársins og eru vefsíður eins og Spotify og We7 umfangsmestar. Sá hluti streymisþjónustunnar sem er bundinn við auglýsingatekjur sá einnig töluverða aukningu milli ára, en 20% vöxtur varð á tekjum í þeim geira og voru heildartekjur um 3,4 milljónir sterlingspunda.

Sumir tónlistamenn hafa gagnrýnt þetta nýja fyrirkomulag og segja að tekjur vegna spilunar sé lítil sem engin. Sellóleikarinn Zoe Keating greindi nýlega frá því að hún hefði fengið 281,87 pund fyrir um 73.000 hlustanir á lögum sínum. Jafngildir það að hún hafi fengið um 0,8 íslenskar krónur á hverja hlustun.