Áætlað er að útflutningsverðmæti fiskeldis verði um 35 milljarðar króna á næsta ári eða um sem nemur tæplega 3% af heildarútflutningi. Talan nam um 25 milljörðum í fyrra og nam tæplega 2% af heildarútflutningi þá.

Heildarframleiðsla í laxeldi er áætluð um 31.500 tonn í ár samanborið við tæplega 27.000 í fyrra og 11.300 tonn árið 2017. Frá þessu greindi Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í morgun.

Nú hafa verið gefin út leyfi fyrir hámarkslífmassa á yfir 79.800 tonnum í íslensku sjókvíaeldi samanborið við um 45.000 tonn árið 2018. Fyrir lok þessa árs er gert ráð fyrir að þessi tala verði komin í um 86.500 tonn.

Meðal þeirra 15 aðgerða sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til þess að bregðast við áhrifum COVID-19 á íslenskan landbúnað og sjávarútveg var að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi og styrkja eftirlit og stjórnsýslu með greininni.