Innflutningsbann rússneskra stjórnvalda á matvælum sem Pútín forseti setti á í kjölfar refsiaðgerða vesturlanda hefur leitt til aukinnar matvælaframleiðslu heima fyrir og haldið aftur af verðbólgu.

Innlenndir framleiðendur tekið við sér

Síðan í ágúst 2014 hafa rússneskir neytendur ekki lengur haft aðgang að til að mynda frönskum ostum og norskum laxi, en innlend fyrirtæki hafa aukið framleiðslu sína á móti og hefur neysla erlendra afurða náð sögulegu lágmarki, samkvæmt tölum matsfyrirtækisins ACRA.

Innflutningur nemur nú einungis 22% af matvælasölu í landinu, en í byrjun ársins 2014 nam hann 34 allrar matvælasölu. Jafnvel þegar verðbólgan náði hámarki sínu í mars 2015 þegar hún nam nærri 17%, olli bannið einungis 1,6 prósentustigum af því, kemur fram í mati fyrirtækisins.

Erlendir ostar nú einungis fimmtungur neyslu, voru helmingur

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016 náði hlutfall innflutts osts til að mynda einungis 23% af heildarandvirði ostasölu í landinu, en tveimur árum fyrr nam hann 49%.

Sömuleiðis minnkaði innflutningur svínakjöts og nam neysla innflutts svínakjöts einungis 8,5% en það hafði verið 18%. Í júlímánuði náði verðbólgan sínu lægsta gildi á tveimur árum, eða 7,2%, en þá hafði bannið engin áhrif á verð samkvæmt mati ACRA.

Landbúnaðurinn tekur við sér og hagnast á banninu

Stefna Pútíns um að gera landið sjálfbært í matvælaframleiðslu hefur hagnast landbúnaðinum alveg sérstaklega, en hann hefur nú náð því að vera 4,4% af landsframleiðslunni, sem er hæsta hlutfall sem hann hefur haft síðan árið 2003.

„Áframhald innflutningsbannsins og minnkandi hlutfall innflutnings í matvælaneyslu, virðist að öllu jöfnu, jafna verðbólguna og gera hana háðari peningastefnu stjórnvalda og seðlabanka Rússlands,“ sagði Dmitry Kulikov, greinandi hjá ACRA samkvæmt frétt Bloomberg .