Í könnun sem Þröstur Olaf Sigurjónsson, aðjúnkt viðskiptadeild HR, gerði á stöðu siðferðis í íslensku viðskiptalífi kemur fram að mál eru í ágætum farvegi. Könnunin var gerð meðal stjórnendur og kom þar fram að þeir segjast huga að siðferðilegum afleiðingum ákvarðanna sinna og þeir segja stöðu mála betri í dag en áður. Jafnframt telja þeir siðferði í viðskiptum á Íslandi vera betra en í nágrannalöndum.

Greint var frá niðurstöðum könnunarinnar á fundi í morgun sem Verslunarráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Glíman (tímarit um guðfræði og samfélag) stóðu fyrir um traust í viðskiptalífinu. Í könnunni kemur fram að stjórnendur segja þá eldri betri en þá yngri í þessum efnum (yngri stjórnendur eru sammála þessu). Kvenstjórnendur viðhafa síðan betra siðferði en karlar, um það eru bæðin kynin sammála.

Siðferði gott en hagsmunaárekstrar algengir

Það sem helst kemur á óvart í niðurstöðum könnunarinnar er að stjórnendur segja siðferði í viðskiptum vera hér mjög gott en samt að hagsmunaárekstrar séu mjög algengir. Allar spurningar í könnuninni eru settar fram í fullyrðingaformi og þegar fullyrt er ?Hagsmunaárekstrar eru algengir í íslensku viðskiptalífi" eru 34% mjög sammála og 60% sammála. Þannig eru 94% íslenskra stjórnenda sem taka undir það að hagsmunaárekstrar séu algengir. Þegar spurt er hversu mörg dæmi menn þekki um hagsmunaárekstra þá segjast 88% þekkja mörg eða nokkur. Það eru frekar stjórnendur í stærri fyrirtækjum og þeir yngri sem þekkja fleiri dæmi. Það gæti verið vegna þess að þeir eru einfaldlega að koma nýjir ?inn á markaðinn" sem stjórnendur og eru að upplifa nýja hluti (sem þeir eldri eru orðnir vanir og taka minna eftir). Það gætu jafnframt komið upp fleiri vafamál í kringum stærri fyrirtækin þar sem mikið er af nýjum og ungum stjórnendum.

Þessi könnun staðfestir enn og aftur að konur eru í ákaflega miklum minnihluta þegar kemur að stjórnendahlutverkinu. Samkvæmt könnuninni eru konur 9% íslenskra stjórnenda en fyrri kannanir undirritaðs hafa gefið hlutfall á bilinu 11-14%. Konur segja sjálfar að þær viðhafi betra siðferði í viðskiptum og karlarnir eru sammála því. Tveir þriðju hlutar beggja kynja fullyrða þetta. Það er reyndar nánast hvergi marktækur munur á svörum kynjanna í gegnum alla könnunina.