Handboltakappinn Sigfús Sigurðsson er maðurinn sem seldi silfurmedalíu sína sem hann fékk á Ólympíuleikunum í Peking í Kína árið 2008. Fram kemur í viðtali við Sigfús í DV í dag að hann hafi gert það vegna skulda, búið hafi verið að loka á hann í bankanum og var hann á fresti hjá sýslumanni.

Sigfús segir að skuldapakkinn sem hann hafi haft á bakinu nær alla sína tíð í atvinnumennsku hafi nánast verið horfinn um skeið. Þegar atvinnumennsku hans lauk eftir Ólympíuleikana hafi tekjurnar hætt að skila sér og hann lent í greiðsluvanda. Í júní hafi hann svo fengið bréf vegna fjárnáms og gjaldþrotaskipta. Hann hafi síðan fengið séns í mánuð. Í stað þess að verða gjaldþrota hafi hann afráðið að fara með medalíuna, fá veð í henni og nota peninga sem hann fékk til að greiða af láni sem var um það bil að falla á foreldra sína.