Sigríður Beinteinsdóttir söngkona tengist einkahlutafélaginu Stjórninni ehf. ekki neitt. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sigríði vegna frétta Viðskiptablaðsins af gjaldþroti Stjórnarinnar.

Félagið, sem var nýlega úrskurðað gjaldþrota, var í eigu Grétars Örvarssonar sem var ásamt Sigríði Beinteinsdóttur hluti af hljómsveitinni Stjórninni. Tilgangur með starfsemi félagsins er listsköpun, að því er fram kemur í ársreikningi frá árinu 2007.

Sigríður Beinteinsdóttir segist í yfirlýsingu telja að það sé afar ósmekklegt og ósanngjarnt af fjölmiðlum að birta myndir af sér eða hljómsveitinni Stjórninni samhliða þessari frétt og hún sé afar ósátt við það.

„Þetta félag tengist enn fremur hljómsveitinni Stjórninni ekkert og hefur aldrei verið notað í tengslum við spilamennsku eða útgáfu þeirrar hljómsveitar í gegnum tíðina,“ segir Sigríður.