Landsmenn eru aftur byrjaðir að skuldsetja sig, í þetta sinn með yfirdráttarlánum, þeim dýrustu sem unnt er að efna til. Þetta segir Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. ráðherra, og vísar til þess að yfirdráttarskuldir landsmanna séu komnar á svipað sig og undir lok árs 2008. Hann bætir við á að heimili landsmanna hafi verið orðin mjög skuldsett fyrir hrun og bendir á að áður en efnahagslífið hafi farið á hliðina hafi 16 þúsund heimili verið komin á vanskilaskrá.

„Sumir gætu haldið að þessi skuldaaukning stafaði einvörðungu af þröngri fjárhagsstöðu heimila. Svo er þó ekki. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hefur einkaneyslan aukist umtalsvert – og alla þá neysluaukningu kosta heimilin með dýrustu lántökum sem unnt er að efna til. Aukning yfirdráttarskulda er alfarið ákvörðun heimilanna sjálfra til þess að borga fyrir aukna neyslu sem einnig er ákvörðun heimilanna sjálfra. Á sama tíma er rætt um nauðsyn þess að létta húsnæðisskuldunum af,“ skrifar Sighvatur í aðsendri grein sem Fréttablaðið birtir í dag. Hann segir hrunadansinn, eins og hann nefnir svo, vera að byrja aftur.

Sighvatur segir að á árunum fyrir hrun hafi kaupmáttur heimilanna náð hæstum hæðum og og skuldir orðnar langt umfram það sem gerist og gengur. Keyrslan hafi verið orðin slík að fleiri Range Rover jeppar voru hér en samanlagt í Danmörku og Svíþjóð. Á sama tíma hafi hér verið næstmesta eftirspurnin eftir nýjustu gerðinni af Toyota Landcruiser. Eftirspurnin var meiri í Rússlandi.

Af þessu dregur hann þá ályktun að fjölmörg heimili hér stefndu í einkahrun þótt ekkert bankahrun hefði orðið.

„Íslenska eyðsluklóin virðist ekkert geta lært,“ skrifar Sighvatur. „Með annarri hendinni teygir hún sig eftir óhagstæðustu lánum sem hugsast getur til þess að kosta neyslu sína. Með hinni hendinni krefur hún samfélagið um að leggja eyri í lófa karls, karls svo niðurgreiða megi vexti á húsnæðislánunum og afskrifa skuldir vegna húsnæðis- og bílakaupa. Hvað er fólk eiginlega að hugsa?“