Ólöf Nordal innanríkisráð- herra segir að vandamál tengd rekstri Íslandspósts ohf. (ÍSP), auk ábendinga umboðsmanns Alþingis og úrskurðir sem hafi fallið vegna stjórnsýslu Póstog fjarskiptastofnunar (PFS) sýni að breytinga sé þörf á póstmarkaði

Þann 30. apríl síðastliðinn var greint frá því í Viðskiptablaðinu að mjög hefði fjarað undan rekstri ÍSP undanfarin tíu ár. Þannig hafi arðsemi eiginfjár verið um 17% þegar best lét árið 2004 en eftir að félagið tók upp þá stefnu að fjárfesta á samkeppnismörkuðum og hefja ytri vöxt hafi hún sigið jafnt og þétt.

Arðsemin hefur verið neikvæð undanfarin þrjú ár af fjórum. Þetta er þrátt fyrir að félagið hafi fjárfest talsvert umfram afskriftir, sölu eigna og arðgreiðslur á tímabilinu, sem bendir til þess að fjárfestingarnar hafi ekki reynst arðsamar. Nokkurt tap hefur verið á dótturfélögum ÍSP, samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Stjórnendur ÍSP halda því fram að lakari arðsemi stafi af minnkandi bréfamagni, en PFS segir að sú skýring sé röng. Vísar PFS til þess að verð á bréfum hafi hækkað til að mæta minnkandi bréfamagni, fjölda pósthúsa hafi verið lokað og þýðingarmiklar breytingar hafi verið gerðar á dreifikerfi til að draga úr kostnaði.

Spurð hvort til greina komi að láta gera sérstaka athugun á rekstri Íslandspósts, til dæmis í hverju hafi verið fjárfest, hvaðan fjármunirnir hafi komið og hvort rekstur Íslandspósts hafi verið innan marka laga vísar Ólöf Nordal á fjármálaráðherra. „Ég held náttúrulega ekki á hlutabréfinu,“ segir hún og bætir við: „Það er náttúrulega alveg ómögulegt að ég sé að stíga inn á það svið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .