Gengi hlutabréfa HB Granda hefur lítið breyst þrátt fyrir nokkuð róstusama tíma hjá félaginu á síðustu mánuðum. Mikil endurnýjun hefur verið á flota félagsins og hefur það ráðist í talsverðar hagræðingaraðgerðar, meðal annars með því að láta af botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi. Ólíklegt er að þetta muni hafa ýkja mikil áhrif á hlutabréfaverð félagsins, en hluthafahópurinn er nokkuð þröngur og greiningaraðilar gera ráð fyrir því að hagræðingaraðgerðir skili sér í góðri afkomu.

Uppsagnir og skipakaup

Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi hefur verið talsvert í kastljósi fjölmiðla á síðustu mánuðum. Árið 2016 reyndist félaginu nokkuð þungt með lokun Rússlandsmarkaðar og verkfalls sjómanna auk fleiri þátta. Tekjur félagsins námu 200 milljónum evra og lækkuðu um 11% á milli ára. Rekstrarárið 2016, sem var það versta í fimm ár, var þó ekki alslæmt. Aftur á móti hafði félagið upplifað mörg mjög góð rekstrarár árin 2012 til 2015.

HB Grandi tilkynnti í mars að félagið myndi láta af botnfiskvinnslu á Akranesi. Upphaflega bárust fregnir að því að öllum starfsmönnum á Akranesi yrði sagt upp. Flestum starfsmönnum félagsins var þó tryggð áframhaldandi vinna eftir uppsagnir. Í júlí sendi félagið frá sér tilkynningu, þar sem kom fram að 57 starfsmönnum yrði boðið nýtt starf á öðrum starfsstöðvum, en ekki var hægt að verða við óskum 14 starfsmanna af þeim 92 sem sagt var upp.

Félagið tilkynnti fyrir tveimur vikum að frystitogarinn Þerney hefði verið seldur til Suður-Afríku á 1,4 milljarða króna. Í kjölfarið var áhöfn á skipsins sagt upp störfum en um leið sagt að sjómennirnir gengju fyrir í önnur störf hjá HB Granda og þeir sem ekki fengju pláss yrðu aðstoðaðir við atvinnuleit.

Engey RE 91, nýr ísfisktogari HB Granda, kom til landsins í lok janúar. Upphaflega var gert ráð fyrir að skipið, sem er hluti af sjö milljarða króna fjárfestingu HB Granda, héldi til veiða í apríl. Miklar tafir urðu hins vegar á því og hélt skipið ekki á miðin fyrr en nú í ágúst.

„Það hefur tekið mun lengri tíma en okkur óraði fyrir að samhæfa vinnslu- og karaflutningakerfi í Engey,“ sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið í byrjun þessa mánaðar. Kerfið, sem Vilhjálmur vísar til, er hannað og smíðað af fyrirtækinu Skaganum 3X.

Ekki virðast þessar væringar hafa hreyft mikið við hlutabréfaverði félagsins. Ef frá eru taldar fyrstu tvær vikurnar í júní þá hefur hlutabréfaverð HB Granda nánast staðið í stað í sumar. Leiðrétt fyrir arðgreiðslum þá stóð gengið í 32,5 eftir lokun markaða í fyrradag en þann dag voru engin viðskipti með bréfin. Í lok ágúst í fyrra stóð gengið í um 29, sem þýðir að á síðustu tólf mánuðum hafa hlutabréfin hækkað um 12%. Á þessu tímabili hefur gengið lægst farið í tæplega 24 og hæst í rúmlega 33, leiðrétt fyrir arðgreiðslum.

Þröngur hluthafahópur

Í samtölum Viðskiptablaðsins við greiningar- og markaðsaðila er vísað til þess að hluthafahópurinn er tiltölulega þröngur og því sé ekki óeðlilegt að gengi hlutabréfa félagsins hafi ekki tekið miklum breytingum. Tiltölulega lítil viðskipti séu með bréfin á markaði.

Langstærsti hluthafinn í HB Granda, Vogun hf., á 33,51% eignarhlut og virðist ólíklegt að þau hlutabréf skipti um hendur. Næststærsti hluthafi félagsins er Lífeyrissjóður verzlunarmanna, með 13,11% eignarhlut og þar á eftir koma Gildi – lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Eignarhaldsfélagið VGJ ehf. Aðrir hluthafar eiga 33,06% hlut í HB Granda.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .