Starfið er mjög skemmtilegt og starfsfólkið virkar mjög vel á mig,“ segir Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo. „Starf mitt felst í því að koma að vöruþróun í sjálfbærniheiminum. Creditinfo er í lykilstöðu í íslensku atvinnulífi að vinna með sjálfbærniupplýsingar og miðla þeim áfram til fjármálamarkaðarins.“

Reynir kemur frá Landsbankanum þar sem hann starfaði í sjálfbærnimálum. Þar áður, árið 2016, stofnaði hann ráðgjafarfyrirtækið Circular Solutions ásamt þremur félögum sínum. „Fyrirtækið óx hratt og við unnum með fyrstu grænu skuldabréfaútgáfurnar á Íslandi, en félagið var keypt af KPMG árið 2020.“

Reynir leggur mikið upp úr því að læra af samstarfsfólki sínu. „Ég hlakka til að læra af samstarfsfólki mínu hjá Creditinfo sem veit meira en ég um ákveðna hluti.“ Jafnframt segist Reynir afar áhugasamur um fjármálamarkaði en hann lauk prófi í verðbréfaviðskiptum á síðasta ári.

Reynir er í sambúð með Önnu Bryndísi Einarsdóttur, taugalækni hjá Landspítalanum. Þau eiga tvö börn saman og búa í Fossvoginum. Stuttu eftir að Reynir hóf doktorsnám, í umhverfis- og auðlindafræði hjá Háskóla Íslands, keyptu Reynir og Anna skútu og hófu siglingu um Miðjarðarhaf. Þau sigldu í hálft ár um Miðjarðarhaf en bjuggu í bátnum heilt yfir í rúmt ár. „Þetta var ótrúlegt ævintýri. Við sigldum um Frakkland, Belgíu, Holland og Þýskaland á árunum 2013-2015. Við sigldum síðan upp til Danmerkur þar sem við bjuggum í fjögur ár.“ Auk þess að hafa búið í Danmörku, hefur Reynir meðal annars dvalið á Ítalíu og í Ástralíu í þrjú ár þar sem hann stundaði nám.

Reynir hefur mikinn áhuga á kaffi. „Það er búið að vera mikið áhugmál hjá mér á undanförnum árum. Ég á þrjár kaffivélar, þar af tvær espressovélar. Í fyrstu var ég mikið að hugsa út í búnaðinn, kaffivélinni sjálfri. Nú hugsa ég meira út í kaffibaunirnar, hvaðan þær koma og hvernig þær eru ristaðar.“

Nánar er rætt við Reyni Smára í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .