Siglingastofnun vinnur nú að könnun að jarðlögum vegna fyrirhugaðrar hafnargerðar í tengslum við umfangsmikinn námugröft við Scorebysfjörð á Grændlandi, en fjörðurinn er aðeins opinn fyrir siglingum tvo mánuði á ári vegna ísalaga.

Um er að ræða námugröft í fjalli sem nefnt er Malmbjerget og liggur talsvert inn í landið.

Hyggst kanadíska námufyrirtækið Quadra Mining vinna þar mikið magn af molybdenum, málmi sem notaður er til herslu stáls fyrir m.a. olíurör, flugvélavarahluti og flugskeyti o.fl.

Talið er að á umræddu svæði sé að finna 212 milljónir tonna af molybdenum, sem þýðir að miðað við magn skáki því fá önnur svæði í heiminum. Hægt væri að stunda þar námugröft í 15-20 ár. Talið er að verðmæti málsins sem hægt verður að vinna úr námunni nemi um 3,5 milljörðum danskra á ári, eða um 56 milljarða íslenskra króna.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári að óbreyttu, og hægt verði að hefja námugröftinn árið 2013. Aðeins er hægt að vinna 2-3 mánuði á ári við undirbúninginn vegna veðurfarslegra aðstæðna á svæðinu.

Tveir starfsmenn Siglingastofnunar sinna nú áðurnefndri könnun jarðlaga vegna hafnargerðarinnar.

Framkvæmd upp á 65-81 milljarð

Quadra Mining, sem á meðal annars kopar- og gullnámur í Bandaríkjunum og er skráð í kauphöllina í Toronto, keypti fyrir nokkrum misserum breska málmleitarfyrirtækið International Molybdenum, og réðst í að gera kostnaðarmat á molybdenum-námi í Malmbjerget.

Þær sýndu fram á hagkvæmni námugraftar á svæðinu. Malmbjerget liggur rúma 180 kílómetra frá þorpinu Ittoqqortoormiit.

Fyrirhugaðar framkvæmdir fela m.a. í sér opna námu, vinnsluverksmiðju, námubæ fyrir 500-600 starfsmenn, sem verður stærri en næsta þorp, Ittoqqortoormiit, ómalbikaða flugbraut, 75 kílómetra langan veg og fyrrnefnda höfn.

Talið er að framkvæmdirnar skapi 600 störf.Áætlaður kostnaður við að koma aðstöðunni á koppinn er um 4-5 milljarðar danskra króna, eða sem nemur 65-81 milljarði íslenskra króna.

Þess má geta að dönsku verktakafyrirtækin MT Højgaard og FLSmidth hafa að undanförnu háð harða keppni um verksamninginn, auk þess að etja kappi við verktakafyrirtæki frá öðrum heimshornum.

Jesper Kofoed, yfirjarðfræðingur við Malmbjergs-verkefnið hjá Quadra Mining, segir í samtali við business.dk að yfirstjórn námuvinnslu í Grænlandi muni afgreiða umsókn fyrirtækisins um vinnsluleyfi í næsta mánuði eða október.