Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag greinir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, frá framtíðaráformum félagsins en ætlunin er að 4-5 falda veltu félagsins en hún er 30 milljarðar króna nú. "Það segir sig sjálft að það hlýtur að kalla á töluverð uppkaup og fjárfestingar í strategískum fyrirtækjum sem falla að þeim mörkuðum sem við störfum á," segir Baldur

"Við erum að undirbúa það og höfum gert lengi enda verið vandlátir í okkar kaupum. Það hefur ekki verið þannig að menn hafi bankað upp hjá okkur og boðið okkur fyrirtæki. Við höfum haft mjög ákveðna stefnu um það hvernig fyrirtæki við viljum og hvar þau eru staðsett," sagði Baldur en félagið hefur nú aukið hlut sinn í litháíska félaginu Kursiu Linija upp í 70% og hefur kauprétt á afgangnum. Í viðtalinu greinir Baldur frá möguleikum félagsins til vaxtar en þekking félagsins í frystiflutningum er lykilatriði í útrás félagsins. Baldur segist ekki sjá fyrir sér frekari vöxt á Norður-Atlantshafinu þar sem félagið einbeitir sér að því að viðhalda markaðshlutdeild sinni. Félagið horfir einkum til vaxtar í Rússlandi og Eystrasaltslöndunum og um leið eru uppi áform um vöxt í Asíu og Norður-Ameríku.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag