Hvalur hf. hefur tekið skipið Winter Bay á leigu til að flytja 1.800 tonn af hvalaafurðum til Japans og mun það sigla með vörurnar norður fyrir Rússland, svokallaða norðausturleið. Ekki er vitað til þess að leiðin hafi verið farin áður með afurðir frá Íslandi. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að leiðin sé 14.800 kílómetrum styttri en leiðin fyrir Góðrarvonarhöfða. Skipið var lestað í byrjun maí en vegna bilunar í vélbúnaði frestaðist brottför um mánuð. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að sigla með ströndum Afríku, en þar sem brottförin dróst var ákveðið að fara norðausturleiðina.

„Ég hef fylgst með umræðunni um norðurslóðamálefni og meðal annars sótt ráðstefnuna Arctic Circle, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti átti frumkvæðið að. Þar var mikið rætt um þessa mögulegu siglingaleið. Eigandi skipsins var til í þetta og fékk til þess tilskilin leyfi,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., í samtali við Morgunblaðið.

Winter Bay er nú á leið til Noregs og mun þar bíða fyrirmæla um að hefja siglinguna.