Sigmar Guðmundsson, sem gegnt hefur starfi ritstjóra Kastljóss undanfarin ár, mun ekki snúa aftur í þáttinn að loknu sumarfríi. Þetta staðfestir hann í samtali við Vísi .

„Það er rétt. Ég ætla ekki að vera ritstjóri næsta vetur. Það hentar mér ekki. Eins og menn vita fór ég í meðferð og er að taka á mínum málm. Stressið og álagið og þessir löngu vinnudagar henta mér engan veginn meðan ég sinni batanum og fjölskyldunni. Um þetta erum við, ég og yfirmenn mínir, algjörlega sammála. Ég hef óskað eftir þægilegri innivinnu á skrifstofutíma,“ segir Sigmar og hlær.

Sigmar mun áfram starfa í öðrum verkefnum innan RÚV og verður áfram spyrill og þáttarstjórnandi í hinu sívinsæla Útsvari. Segir hann að eðlilegast væri ef Þóra Arnórsdóttir tæki við starfi sínu í Kastljósinu, en kveðst ekki vita hvort hún hafi áhuga. Starfið sé langt frá því að vera fjölskylduvænt.