„Við erum ánægðir með þessa niðurstöðu. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, einn forsvarsmanna Konunglega kvikmyndafélagsins. Tilkynnt var fyrir skömmu að samkomulag hafi náðst um að 365 miðlar taki yfir alla hluti Konunglega kvikmyndafélagsins og báðar sjónvarpsstöðvar fyrirtækins. Sjónvarpsstöðin Bravó mun halda áfram en Mikligarður verður sendur í sumarfrí.

Tilkynnt var undir lok apríl að aukins hlutafjár væri leitað til rekstrar Konunglega kvikmyndafélagsins og hafi öllu fastráðnu starfsfólki verið sagt upp. Sjónvarpsþættir á vegum félagsins höfðu aðeins verið í loftinu í nokkrar vikur þegar tilkynnt var um uppsagnir. Sigmar sagði í samtali við VB.is ástæðu þessa þá að það hafi reynst of kostnaðarsamt að koma fyrirtækinu í gang.

Haft er eftir Sigmari í tilkynningu að vonir standi til að flest það starfsfólk sem hefur unnið að verkefni bjóðist áframhaldandi starf við fjölmiðla.