Sigmar Vilhjálmsson og Óli Valur Steindórsson, eigendur Hlöllabáta ehf., hafa ákveðið að fara hvor í sína áttina og skipta eignum á milli sín eftir tæplega tveggja ára samstarf, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins .

Í Hlöllabáta-samstæðunni eru veitingastaðir Hlöllabáta, Barion Mosó, Barion Bryggjan brugghús ásamt Minigarðinum. Talið er að Sigmar taki að sér rekstur Minigarðsins og Barion Bryggjan og Óli Valur tali við rekstri Hlöllabáta og Barion Mosó.

Samhliða skiptingunni verður horft til hagræðingaraðgerða. Þá verði til tvö minni félög með sveigjanlegri rekstrareiningar sem geri þeim kleift að bregðast betur við erfiðum rekstraraðstæðum í faraldrinum ásamt því að auðvelda fjármögnun til lengri tíma. Fram kemur að engar skuldir verða felldar niður og félögin muni standa við sínar skuldbindingar.

Sjá einnig: 86 milljónir í minigolf

Sóttvarnarreglur vegna faraldursins hafa gert samstæðunni, og raunar veitingageiranum öllum, erfitt fyrir. Sigmar sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í lok árs 2020 að í kjölfar þess að Barion veitingastaðirnir og Minigarðurinn urðu hluti af fyrirtækinu hafi verið gert ráð fyrir að velta fyrirtækisins yrði á bilinu 1,8-1,9 milljarðar króna það árið. Þegar uppi var staðið nam veltan 975 milljónum.