Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur síðustu daga átt óformlegar viðræður við fulltrúa allra stjórnmálaflokka á þingi.

Í hópsendingu til fjölmiðla segir að viðræðurnar hafi fyrst og fremst snúist um að fá fram sýn flokkanna á stöðuna eftir alþingiskosningarnar og hver helstu áherslumálefni þeirra séu við upphaf kjörtímabilsins.

Sigmundur Davíð átti í dag framhaldsfund með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins til að fara nánar yfir tillögur Framsóknarmanna varðandi skuldamál heimilanna.

Í hópsendingunni er haft eftir Sigmundi að fundirnir allir hafi verið innihaldsríkir, en að ekkert hafi verið ákveðið varðandi framhaldið.