Á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær sagði forsætisráðherra að framvurp um afnám hafta myndi koma til þings fyrir þinglok. Þessu greinir Fréttablaðið frá.

Í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær fór Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ítarlega yfir afnám gjaldeyrishafta. Hann sagði að það væri mikilvægt að hleypa af stokkunum áætlun um afnám gjaldeyrishafta fyrir þinglok. Það hafi tekið of langan tíma að afnema höftin og hundraða milljarða hagnaður myndi koma í ríkissjóð af framkvæmdinni. Hann sagði að það væri því ekki um annað að ræða en að hrinda í framkvæmd áætlun um losun hafta nú áður en þingið lýkur störfum. Sérstakur stöðugleikaskattur muni þá skila hundruðum milljarða króna og muni ásamt öðrum aðgerðum gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað. Sigmundur sagði að það sé ekki hægt að una því lengur að íslenska hagkerfið sé í gíslingu óbreytts ástands og eignarhald á fjármálakerfi landsins í því horfi sem það er. Laga frumvarp um afnám hafta mun koma inn í þingið með afbrigðum. En samkvæmt starfsáætlun þingsins er búið að loka fyrir ný mál á Alþingi og einungis 20 þingdagar eru eftir.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir skilyrði fyrir afnámi hafta fyrir hendi og mikilvægt að áætlun stjórnvalda um afnám raski ekki stöðugleika í efnahagslífinu. Hann segir að samtökin hafi ekki séð neitt um áform stjórnvalda varðandi afnám hafta. Hins vegar, sé þetta brýnt úrlausnarefni og nauðsynlegt sé að nota það efnahagslega svigrúm sem fyrir hendi er til að stíga skrefið að afnámi haftanna.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, óskar eftir frekara samráði við stjórnarandstöðuna og segir að enn einu sinni sé framlag ríkisstjórnarinnar til afnáms hafta það eitt að setja fram digurbarkalegar yfirlýsingar byggðar á leyniáætlunum sem enginn hefur séð.  Hann segir enga áætlun koma fram sem þoli dagsins ljós. Að forystumenn ríkisstjórnarinnar ráði greinilega ekki við að skapa samstöðu um þetta mikilvæga mál. Hann segir að við vinnu við afnám hafta eigi að hafa hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Ekki hagsmuni Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins eða útvalinna vildarvina