Sú umræða skýtur reglulega upp kollinum að Framsóknarflokkurinn sé á leiðinni inn í núverandi ríkisstjórn.

Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að sú umræða komi þó helst frá spunameisturum Samfylkingarinnar og eigi að virka sem hótun á vinstri græna.

„Auðvitað kæmi aldrei til greina að við færum inn í þessa stjórn til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar sem við höfum haft mikið við að athuga, ekki síst varðandi skatta- og atvinnumálin, að ónefndri afstöðu þeirra til Icesave-málsins,“ segir Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davið segir að það megi heyra á viðskiptalífinu að Magma-málið svokallaða hafi skaðað orðspor Íslands mun meira en Icesave-málið eða gjaldeyrishöftin. Það spyrjist fljótt út í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi ef stjórnvöld í lýðræðisríki grípi inn í samninga á milli einkaaðila og fari í pólitísku offorsi gegn viðurkenndum viðskiptahugmyndum.

„Menn þurfa að gera sér grein fyrir því hversu skaðleg atvinnulífinu núverandi ríkisstjórn er,“ segir Sigmundur Davíð.

„Sumir þora ekki eða vilja ekki koma með fjármagn hingað, fyrst og fremst vegna óstöðugleika í stjórnmálum. Aðrir líta ekki við landinu af sömu ástæðum. Þetta á þó líka við íslenska aðila. Atvinnulífið heldur að sér höndum af því að menn vita ekki hvaða næstu mánuðir bera í skauti sér.“

--------------------------------------------------------

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kom nokkuð óvænt inn í íslenska pólitík í byrjun árs 2009 og tók við flokknum á miklum umrótstímum. Í viðtali við Viðskiptablaðið tjáir Sigmundur Davíð sig um stöðu og sérstöðu flokksins, stöðu sína innan flokksins, stjórnmálaástandið í dag og mikilvægi stjórnmálaflokka í lýðræðisríkjum.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .