Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að ekki megi gleyma hversu mikilvægu hlutverki stjórnmálaflokkar gegni í lýðræðisríkjum.

„Eins og staðan er núna eru allir settir undir sama hatt, sérstaklega fjórflokkurinn og meginþorri stjórnmálastéttarinnar,“ segir Sigmundur Davíð.

„Það vantar þetta grundvallaratriði að menn geri upp á milli flokkanna, að fólk greiði þeim flokki atkvæði sem höfðar hvað best til þeirra skoðana. Þannig myndast hvati fyrir stjórnmálaflokka til að uppfylla óskir almennings. Það er búið að aftengja þetta með því að segja að allir stjórnmálaflokkar séu eins. Þá hættir lýðræðið að virka og möguleikar á að öfgafyrirbæri geti myndast.“

Þá segir Sigmundur Davíð að stjórnmálaþreyta sé oft undanfari þess að menn fari út í einhverja vitleysu við stjórn lýðræðisríkja.

„Það sem ég er að vonast til að breytist á þessu ári, ekki bara við minn flokk heldur alla aðra flokka, er að menn gefi flokkunum séns og geri upp á milli þeirra í samræmi við það,“ segir Sigmundur Davíð.

--------------------------------------------------------

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kom nokkuð óvænt inn í íslenska pólitík í byrjun árs 2009 og tók við flokknum á miklum umrótstímum. Í viðtali við Viðskiptablaðið tjáir Sigmundur Davíð sig um stöðu og sérstöðu flokksins, stöðu sína innan flokksins, stjórnmálaástandið í dag og mikilvægi stjórnmálaflokka í lýðræðisríkjum.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .