Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Áður hafði verið tilkynnt að Höskuldur Þórhallsson hefði unnið. En það reyndist misskilningur. Tölur rugluðust.

Eftir að tilkynnt hafði verið að Höskuldur hefði unnið fóru framkvæmdastjóri flokksins, Sigfús Ingi Sigfússon, og formaður kjörstjórnar, Haukur Ingibergsson, út úr salnum. Mikil óvissa ríkti og Höskuldur beið í pontu eftir að halda ræðu. Sú saga komst fljótlega á kreik að einhver misskilningur væri á ferðinni.

Um fimm mínútum síðar var fundinum tilkynnt að tölur hefði ruglast. Sigmundur Davíð hefði hlotið fleiri atkvæði en Höskuldur. Sigmundur Davíð fékk samkvæmt því 449 atkvæði en Höskuldur 340 atkvæði.

Þakkaði traustið

Sigmundur Davíð sagðist í ræðu, sem hann er nú að halda á flokksþinginu, að hann hefði fagnað því þegar hann heyrði að Höskuldur hefði haft betur. Það efaðist enginn um að Höskuldur yrði áfram forystumaður í flokknum.

„Ég þakka ykkur kærlega fyrir það gríðarlega traust sem þið sýnið mér," sagði Sigmundur Davíð og bætti því við að þetta hefði verið stórt stökk fyrir marga í ljósi þess að hann væri nýr í flokknum. „Það er okkur ekkert að vanbúnaði að rísa," sagði hann um Framsóknarflokkinn. Flokkurinn myndi ná fyrri styrk.

Hann sagði að flokkurinn væri búinn að sanna það fyrir þjóðinni að það eina sem skipti máli fyrir flokkinn núna væri að vinna að grunngildum flokksins.