„Ég hafði orð á því þegar fórum að hækka að æskilegt væri fyrir aðra flokka að koma með okkur en ekki gegn okkur,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í Ríkisútvarpinu í morgun og þar spurður út í mikla aukningu á fylgi flokksins í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem birt var í morgun.

Flokkurinn fengi 40% atkvæða yrði gengið til kosninga nú. Aðeins Píratar bæta við sig í könnuninni en Sjálfstæðisflokkurinn myndi gjalda afhroð með 17,8% fylgi.

Sigmundur segir það þægilegt að vera með hreinan meirihluta en gerir ráð fyrir að fylgið muni sveiflast mikið eftir því sem nær líður kosningum undir lok mánaðar.