Það vakti mikla athygli í dag þegar eftir því var tekið að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í íþróttaskó merkjum Nike á öðrum fæti en lakkskó á hinum á fundi með við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í bústað Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Stokkhólmi og öðrum leiðtogum Norðurlandanna í Stokkhólmi í gær.

Sigmundur svaraði VB.is því reyndar sjálfur að hann hafi fengið sýkingu í fótinn og því þurft að fara á spítala. Þar var búið um fótinn. Hann gat því ekki komist í spariskóinn og þurfti að nota annan skó á vinstri fótinn.

Fjölmiðlafólk og fleiri slógu á létta strengi á Facebook í kjölfarið.

Þetta var á meðal þess sem fólk skrifaði:

Þórður Snær Júlíusson , ritstjóri Kjarnans: Hérna...af hverju er Sigmundur Davíð í sitt hvorum skónum? Og af hverju er hann í Nike-körfuboltaskóm á öðrum fætinum?

Þorbjörn Þórðarson , fréttamaður á Stöð: Hann hefði verið góður í Air Jordan skóm á þessum fundi.

Atli Fannar Bjarkason , aðstoðarmaður Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar: Er fótur fyrir heimsókn Obama til Íslands eftir fundinn í gær? Það er náttúrulega spurning hvernig forsætisráðherra fótar sig í málinu.

Freyr Bjarnason , blaðamaður á Fréttablaðinu og varnarmaður hjá FH: Þér verður nú aldrei fótaskortur á tungunni Atli.

Karen Kjartansdóttir , fréttakona á Stöð 2: Djöfull er týpískt að loksins þegar karlkyns forsætisráðherra tekur við stjórnartaumunum tali fólk bara um skóna hans.

Trausti Hafliðason , fyrrverandi fréttastjóri á Fréttablaðinu: Þessu Nike-máli er engan veginn lokið. Fyrsta spurningin er auðvitað, af hverju var hann ekki bara í samstæðum Nike skóm? Það hefði verið skárra. Ég ég er reyndar farinn að hallast að því að með þessu stönti hafi Sigmundur verið að senda Obama skilaboð í Sýrlands-málinu - JUST DO IT!

Bergsteinn Sigurðsson , morgunútvarpi Rásar 2: Af hverju var hann ekki bara í tveimur íþróttaskóm. Það hefði verið enn meira töff.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði sjálfur létt grín að málinu í færslu um málið á Facebook. Þar sagði hann: „Fundurinn með leiðtogum Norðurlandanna og forseta Bandaríkjanna í gær var afar áhugaverður og góðar umræður sem þar áttu sér stað. Í raun var sérstakt hversu gott og jákvætt andrúmsloftið var þrátt fyrir oft á tíðum alvarleg umræðuefni. Í morgun brá ég svo undir mig betri fætinum og spjallaði um fundinn í morgunútvarpi sænska ríkisútvarpsins.“