Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist enn vera opinn fyrir hugmyndum um að taka upp kanadadollar eða norska krónu. Hann sagði í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni að möguleg upptaka nýs gjaldmiðils hefði borið á góma þegar hann var í Kanada, og líka þegar hann var í Noregi, á dögunum.

„Menn þekkja það mál margir hverjir í Kanada, þetta var reyndar líka nefnt í noregi þar sem var spurt út í áhuga Íslendinga,“ sagði Sigmundur Davíð.  Sigmundur Davíð sagði að menn þyrftu að vera opnir fyrir því að skoða ólíkar leiðir. En burtséð frá því hvað menn ætluðu að gera í gjaldmiðlamálum, það þyrfti alltaf að ná tökum á ríkisfjármálum og verðbólgu.