„Ef einhversstaðar á að nýta skattkerfið til að skapa jákvæða hvata þá er það í skuldamálunum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins þegar hann lagði  þingsályktunartillögu flokksins um frádrátt á tekjuskatt vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga fram á Alþingi í dag.

Sigmundur áréttaði að þessi aðferð væri aðeins ein leið af mörgum í leiðréttingu á skuldum einstaklinga og heimila í kjölfar forsendubrests.

Sigmundur Davíð sagði langtímaáhrifin geta verið jákvæð, jafnvel bætt stöðu Íbúðalánasjóðs og skilað því að veðhlutföll banka batni og þeir tekið að veita lánsfé á lægri vöxtum en nú.

„Með þessu móti berast greiðslur hraðar inn í Íbúðalánasjóð og því hagkvæmt og því er þetta skynsamleg leið til að fjármagna sjóðinn. Þetta er vænlegri leið en ef ríkið slær lán núna og leggur inn í sjóðinn. Ríkið yrði þegar fram liðu stundir betur í stakk búið til að fjármagna sjóðinn. Það gæti líka þrýst vöxtum niður þegar fjármagn kemur hraðar inn í bankana,“ sagði hann.

„Umræðan um þessi mál tekur á vandanum eins og hann er núna og er tiltölulega einföld í framkvæmd," sagði Sigmundur Davíð og benti á að frádráttur sem þessi sé síður en svo einsdæmi. Hann nefndi m.a. skattaafslátt vegna kaupa á hlutabréfum og skattlausaárið áður en staðgreiðsla skatta var tekin upp.