Óhætt er að segja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telji fjölmiðla ekki á sínu bandi miðað við grein hans sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Það er ekki langt síðan fyrsta hreina vinstristjórnin fór frá völdum eftir sögulegt tap í kosningum. Á meðan sú ríkisstjórn var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, spyrðum ekki hvert annað: „Hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála,“ segir Sigmundur Davíð meðal annars.

Hann segir umfjöllun hafa sums staðar verið svo einhliða, að í öllum vangaveltum síðasta kjörtímabils um muninn á umfjöllun um S-V-stjórn eða B-D-stjórn hvarflaði varla að nokkrum manni hversu mikill og augljós sá munur yrði eða hversu fljótt hann myndi birtast. Sigmundur nefnir enga fjölmiðla á nafn en segir samt sem áður ekki ætlunina að gagnrýna fjölmiðla almennt. „Hér er auðvitað rétt að geta þess að í þessu eins og öðru eru fjölmiðlar og fjölmiðlamenn jafnólíkir og þeir eru margir og alls ekki ætlunin að gagnrýna fjölmiðla almennt.“

Engin brella of aum

Sigmundur Davíð segir það hafa verið furðulegt að fylgjast með því að engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur stjórnarandstöðunnar svo augljós að hann verði ekki að stórfrétt. „Látið er eins og það séu undur og stórmerki þegar núverandi ríkisstjórn hverfur frá stefnu fyrri ríkisstjórnar og framfylgir eigin stefnu. Ekkert af þessu á þó að koma á óvart.“

Nefnir Sigmundur ýmis dæmi þar sem hann telur á ríkisstjórn sína hallað. Til að mynda í umfjöllun um veiðigjöld, skuldamál heimilanna og rammaáætlun. „Það er ekkert út á það að setja að áhugafólk um þjóðfélagsmál beiti sér fyrir undirskriftasöfnun á netinu. Slíkt verður eflaust algengt á næstu árum. En það hversu langt svekktir stjórnarandstæðingar hafa gengið í að nýta sér það er fyrir neðan allar hellur. Nú skal hefna þess í fjölmiðlum sem hallaðist í kosningum,“ segir hann meðal annars um það upphlaup sem varð þegar sjávarútvegsráðherra var sakaður um skoðanakúgun vegna þess að tölvupóstur með fundarboði var sendur á netfang yfirmanns eins þeirra sem stóð að undirskriftarsöfnuninni.