Ríkisstjórnin hefur leynt upplýsingum um aðildarviðræður stjórnvalda um aðild að Evrópusambandinu eða snúið út úr málum sem snúa að viðskiptum Íslands og Evrópusambandsins, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, þar sem hann ræddi um störf þingsins á Alþingi á nýhöfnum þingfundi.

„Þegar lagt var af stað um aðild að ESB var kapp lagt á upplýsta umræðu. Grundvallaratriðum málsins er annað hvort haldið fram umræðunni eða út úr þeim snúið. Málin hafa snúist á verri veg,“ sagði Sigmundur Davíð og benti á að stjórnarmeirihlutinn beiti brögðum til að þoka málum áfram.

Undir þetta tók flokksbróðir hans, Ásmundur EInar Daðason, sem sagði stjórnvöld beita klækjabrögðum. Ásmundur sagðist jafnframt hafa heimildir fyrir því að umræðum um IPA-styrki ESB hafi verið afgreidd í utanríkismálanefnd þar sem ekki hafi verið meirihluti fyrir málinu í nefndinni.

Þá sagði Sigmundur Davíð að Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hafi beðið árangurslaust í marga mánuði eftir því að fá að ræða við ráðherra um aðildarviðræðurnar við ESB.