Beint áætlunarflug milli Íslands og Edmonton í Kanada, hófst í dag þegar Boeing 757 þota Icelandair tók á loft frá Keflavíkurflugvelli kl 16:45 síðdegis. Flogið verður fjórum til fimm sinnum í viku til borgarinnar allt árið um kring.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og eiginkona hans mun heimsækja Albertafylki í tengslum við flugið. Forsætisráðherra mun meðal annars eiga fundi með Alison Redford, forsætisráðherra Albertafylkis, og Don Iveson, borgarstjóra Edmonton. Þá mun ráðherra heimsækja þing Albertafylkis og ávarpa viðskiptaráð og efnahagsráð Edmonton, en með forsætisráðherra í för verður viðskiptasendinefnd frá Íslandi. Þá mun forsætisáðherra kynna sér olíuiðnaðinn í Albertafylki og hitta fyrir Vestur Íslendinga, en fjölmargir Kanadamenn af íslenskum uppruna búa í Edmonton og Alberta.

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 er sú stærsta í sögu félagsins og um 18% umfangsmeiri en á síðasta ári. Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða, Edmonton, Vancouver og Genfar, og ferðum fjölgað til ýmissa borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rúmlega 2,6 milljónir í ár, en voru 2,3 milljónir á síðasta ári.