Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, myndi falla af þingi er gengið yrði til kosninga nú en Framsóknarflokkurinn fengi þó sama þingmannafjölda og nú er, eða 9 þingmenn. Framsóknarflokkurinn leiðir bæði norðurkjördæmin.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag er núverandi stjórnarmeirihluti kolfallinn ef gengið yrði til kosninga nú. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúls Capacent frá því í febrúar sl., brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 13 þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Samstaða bæta við sig átta þingmönnum hvor.

Ef fylgi Framsóknarflokksins er skoðað nánar þá er flokkurinn með um 15% fylgi á landsvísu skv. Þjóðarpúlsinum og bæti við sig um 2 prósentustigum frá síðustu kosningum.

Þingmannafjöldi flokksins helst óbreyttur miðað við þetta en flokkurinn fékk síðast kjörna níu þingmenn. Á þeim tíma sem liðinn er frá kosningum hefur einn þingmaður þó gengið úr þinghópnum, Guðmundur Steingrímsson, þingmaður í NV-kjördæmi. Þá hefur einn þingmaður gengið til liðs við þinghópinn úr liði Vinstri grænna, Ásmundur Einar Daðason, sem einnig er þingmaður í NV-kjördæmi.

Framsókn bætir við sig fylgi í NV-kjördæmi frá síðustu kosningum, eða 4%. Þrátt fyrir það heldur flokkurinn sama þingmannafjölda, eða tveimur þingmönnum í kjördæminu. Þá bætir flokkurinn lítillega við sig í NA-kjördæmi, eða 1%, og einum þingmanni en reglur um jöfnunarþingmenn útskýra þennan mismun. Þá má geta þess að Framsóknarflokkurinn leiðir bæði norðurkjördæmin skv. Þjóðarpúlsinum.

Aftur á móti tapar Framsóknarflokkurinn nokkru fylgi á höfuðborgarsvæðinu og lítillega á Suðurlandi. Mesta fylgið missir flokkurinn í SV-kjördæmi, eða 4% fylgi. Þá tapar Framsóknarflokkurinn 2-3% fylgi í báðum Reykjavíkurkjördæmunum frá síðustu kosningum sem aftur þýðir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður, missir sæti sitt. Í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu mælist Framsóknarflokkurinn með 6,5-8% fylgi.

Rétt er að taka fram að í öllum þremur tilvikum er Framsókn með minna fylgi en Samstaða og í Reykjavíkurkjördæmi norður mælist flokkurinn sá sjötti stærsti. Reykjavíkurkjördæmi norður er jafnframt eina kjördæmið þar sem Björt framtíð, flokkur Guðmundar Steingrímssonar, fengi þingmann miðað við niðurstöður Þjóðarpúlsins.

Loks tapar Framsókn 3% fylgi í Suðurkjördæmi en heldur þó sínum tveimur þingmönnum.