Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, átti í dag símafund með Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ráðherrarnir hafi rætt þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í samskiptum ríkjanna. Forsætisráðherra Íslands gerði forsætisráðherra Rússlands grein fyrir því að áhrif viðskiptaþvingana hér á landi væru hlutfallslega meiri en hjá flestum öðrum ríkjum sem undir þær falla og virðast bitna mest á útflutningi á sjávarafurðum.

Haft er eftir Sigmundi Davíð að þeir hafi átt gott samtal þar sem aðdragandi stöðunnar, sem upp er komin, var rædd og að þeir hafi orðið sammála um að æskilegt væri að embættismenn landanna héldu áfram samskiptum. Það séu gríðarlegir hagsmunir undir og að ríkisstjórnin setji þetta mál í algeran forgang.

Í tilkynningunni segir að samtalið við forsætisráðherra Rússlands hafi átt sér stað í kjölfar þess að ríkisstjórnin fór yfir möguleg áhrif viðskiptaþvingana á fundi sínum fyrr í dag. Ísland og Rússland eigi langa og jákvæða viðskiptasögu að baki og það hafi verið vilji hér á landi til að byggja áfram á því sterka viðskiptasambandi. Íslensk stjórnvöld hafi undanfarnar vikur átt mikil samskipti við rússnesk stjórnvöld eftir ýmsum leiðum til að reyna að koma í veg fyrir að mótaðgerðir Rússa bitnuðu óeðlilega mikið á Íslandi. Stjórnvöld muni halda þeim samskiptum áfram með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum á mikilvæg störf í sjávarútvegi og greinina í heild.