Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og var þetta í fyrsta skiptið sem hann veitir viðtal eftir afsögn sína.

Sigmundur Davíð fór um víðan völl í viðtalinu og þvertók enn og aftur fyrir að hann hefði beðið Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, um þingrof á frægum fundi þeirra á Bessastöðum stuttu eftir Kastljósþáttinn sem m.a. fjallaði um aflandsfélagið Wintris, sem áður var í eigu Sigmundar.

Sigmundur Davíð hefur verið í fríi frá þingstörfum í um sjö vikur, eða frá því að hann sagði af sér sem forsætisráðherra. Í viðtalinu við Pál Magnússon á Sprengisandi sagðist hann þó stefna á að snúa aftur á þing í kvöld þegar atkvæði verða greidd um frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem á að leysa aflandskrónuvandann og liðka fyrir afnámi fjármagnshafta.

Sigmundur sagðist fagna því að niðurstaða væri við það að náðst í þessu merkilega máli og vill hann taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Stefnt er á að frumvarpið verði orðið að lögum áður en markaðir opna á mánudag. Þingfundur hefst klukkan 20:00 í kvöld.

Þá sagði Sigmundur Davíð jafnframt að hann hyggðist leiða Framsóknarflokkinn í næstu kosningum, sem fara fram í haust.

Viðtalið við Sigmund Davíð í Sprengisandi má hlusta á með því að smella hér .