Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gaf mjög sterklega til kynna í setningarræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins, að hann væri á móti því að gömlu bankarnir fengju að klára nauðasamninga. Sagði hann að megnið af kröfunum á hendur íslenskum bönkum væru ekki lengur í eigu þeirra sem töpuðu gríðarháum upphæðum á að lána íslensku bönkum fjármagn. Þær hafi verið keyptar af vogunarsjóðum sem í flestum tilvikum hafi hagnast gríðarlega á þeim.

„Við getum ekki leyft erlendum vogunarsjóðum að tefla framtíð íslensks efnahagslífs, heimilanna og fyrirtækjanna, í voða. Fullnaðarsigur í Icesave málinu gefur nú aukin tækifæri til að taka á þeim ógnum sem vofa yfir íslensku efnahagslífi og heimilum. Í þeirri baráttu munum við sýna sömu festu og áður,“ sagði Sigmundur Davíð.

Þá skaut hann föstum skotum að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum samningaleiðarinnar í Icesave-málinu. Málflutningur þeirra í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslnanna hafi einkennst af hræðsluáróðri. „En hvers vegna þróaðist þá málið eins og það gerði í íslenskum stjórnmálum? Hvers vegna var margfallt meiri kraftur settur í að keyra kröfurnar áfram hér heima fyrir en að verjast út á við? Ástæðan er sú að ríkisstjórnin taldi sig vera búna að leggja sjálfa sig að veði og treysti sér aldrei til að draga í land sama hvaða upplýsingar komu fram um alvarleika málsins. Í staðinn var bætt í áróðurinn, allt snerist um að vinna pólitískan sigur heima fyrir fremur en að verja réttlætið út á við. Það er því ekki hægt að álasa þeim 40 prósentum sem vildu fallast á síðasta Icesavesamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem höfðu þá afstöðu byggðu ákvörðun sína á upplýsingum frá stjórnvöldum. Ábyrgðina verða þau stjórnvöld að bera sem veittu rangar upplýsingar, beittu hræðsluáróðri til að verja pólitísk mistök og tóku eigin stöðu fram yfir hagsmuni heildarinnar.“

Leiðréttingarleiðin raunhæf

Sigmundur varði einnig töluverðum tíma í að ræða um skuldavanda heimilanna. Sagði hann að sú leiðréttingarleið, sem Framsóknarmenn hefðu lagt til fyrir nokkrum árum, hefði verið raunhæf og hefði skilað raunverulegum árangri, en staðan væri nú mun verri og erfiðari en þá. „Það þarf að takast á við vanda heimilanna á þrennum vígstöðvum. Í fyrsta lagi er það uppsafnaði vandinn, sá sem ekki var leiðréttur eftir efnahagshrunið, í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að sams konar stökkbreyting eigi sér stað aftur með því að taka á verðtryggingunni og loks þarf að tryggja fólki betri lífskjör, fleiri og betur launuð störf.“

Þá talaði hann mjög gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið og endurtók það sem hann hefur áður sagt að ekki ætti að halda áfram aðildarviðræðum við ESB fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þá lauk hann ræðu sinni með þessum orðum: „Kæru vinir, megi vorið marka birtingu nýrrar vonar og upphafið að framsókn á öllum sviðum íslensks mannlífs. Framsókn fyrir heimilin. Framsókn fyrir atvinnulífið. Framsókn fyrir Ísland.“