*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 25. ágúst 2017 12:49

Sigmundur: Eftirláta öfgamönnum umræðuna

Fyrrverandi forsætisráðherra segir stjórnmálamenn verða að takast á við málefni flóttamanna því annars muni pólitíska landslagið breytast.

Ritstjórn
Gígja Dögg Einarsdóttir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins segir ástæðu aukinna fólksflutninga frá fátækum löndum til þeirra ríku að hagur þessara landa sé að batna. Þetta kemur fram í grein eftir Sigmund sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær sem hefst á orðunum: „Heimurinn er á flestan hátt að batna.“

Í greininni, sem ber yfirskriftina Að greina stóru málin og takast á við þau, nefnar hann þó þrjú aðkallandi úrlausnarefni fyrir Vesturlönd sem séu farin að breyta hefðbundnum pólítísku landslagi í heimshlutanum.

Hefðbundin stjórnmál ekki að takast á við mál

„Ekki vegna þess að hin hefðbundnu stjórnmál séu að takast á við þessi mál heldur vegna þess að þau gera það ekki,“ segir Sigmundur og vísar þar í áhrif alþjóðavæðingar, áhrif hátæknibyltingarinnar sem hann kallar hina nýju iðnbyltingu og loks hinn mikla straum fólks frá fátækari löndum til Vesturlanda.

Spyr hann sig hvernig það megi á því standa að aldrei hafi verið eins margir á flótta í heiminum og nú á sama tíma og heimurinn hafi aldrei verið eins friðsamur og velmegun aldrei eins almenn.

Í greininni snertir Sigmundur á svipuðum málum og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi segir að hafi valdið því að hún hafi þurft að yfirgefa flokkinn. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær segir hún Framsóknarflokkinn ekki þora að ræða mikilvæg málefni, og verði því aldrei annað en smáflokkur.

Hjálpar ekki raunverulegum flóttamönnum

Bendir Sigmundur á að á að þróunarhagfræðingur telji straum fólks frá landi aukast eftir að árstekjur í landinu fara yfir 600 Bandaríkjadali, en hætti ekki fyrr en þær séu komnar í um 7.500 dali. „Sókn fólks í betri kjör er eðlileg og hún mun halda áfram. Sú þróun hjálpar hins vegar ekki raunverulegum flóttamönnum,“ segir Sigmundur Davíð svo.

„Straumur flóttamanna og annars förufólks til Evrópu er farinn að valda verulegri togstreitu innan, og á milli-, Evrópulanda og átökin ágerast. Á þessu ári hefur stærsti hópurinn komið yfir hafið frá Líbíu til Ítalíu. Flestir sem koma þá leið eru ekki að flýja stríð heldur að leita betri lífskjara en eiga þó að baki langt og hættulegt ferðalag. Nígeríumenn eru fjölmennastir en næst á eftir kemur fólk frá Bangladesh.“

Að þora ekki eftirlætur öfgamönnum umræðuna

Sigmundur reifar síðan gríðarlega fólksfjölgun í löndum Afríku sem spáð er að verði á næstu árum og áratugum sem kalli á að stjórnmálamenn á Vesturlöndum móti stefnu og geri sér grein fyrir umfangi og eðli úrlausnarmálanna sem batnandi heimur stendur frammi fyrir.

„Ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafa það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans eru þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar,“ segir Sigmundur áður en hann lýkur með orðunum: „Ef það gerist er ólíklegt að heimurinn haldi áfram að batna.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is