Ekki er lengur hægt að tala um ákveðna prósentu í niðurfellingu húsnæðislána, að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, en Sigmundur var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 . Framsóknarmenn töluðu lengi fyrir 20% flatri niðurfellingu fasteignalána heimilanna.

Sigmundur segir að fjórum árum eftir bankahrunið séu aðstæður fólks ólíkar og ekki sé til dæmis eðlilegt að leiðrétta nýleg lán um fimmtung. „Menn, úr því sem komið er, þegar þessi tími er liðinn, hljóta að þurfa að velta því fyrir sér hvernig lánin breyttust. Það er allt annað að takast á við lán einhvers sem tók lán 2006, og lenti síðan í þessu verðbólguskoti, og einhver sem tók lán í síðasta mánuði,“ segir Sigmundur.

Sigmundur segir hugsunina aðallega vera þá að koma til móts við fólk sem, að mati framsóknarmanna, hafi ekkert verið gert fyrir til þessa. „Það er að segja fólk sem hefur verið að reyna að standa í skilum, kannski búið að tapa öllu eigin fé sínu, en er ennþá að borga af lánunum, að skapa einhverja hvata fyrir þetta fólk til þess að standa í skilum vegna þess að skilaboðin til þessa hafa yfirleitt verið þau að það er ekkert gert fyrir þig nema þú sért algjörlega kominn í þrot,“ segir Sigmundur.