Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar á Alþingi í morgun og baðst afsökunar á framkomu sinni á þingfundi á fimmtudagskvöld.

„Vegna veru minnar hér í pontu síðastliðið fimmtudagskvöld vil ég árétta að þar urðu mér á mistök sem ber að biðjast afsökunar á. Það er hér með góðfúslega gert," sagði hann.

Fram kom á bloggi hans á Pressuvefnum í gær að hann hefði fengið sér léttvín með matnum sama kvöld. Kvöldverðurinn var í boði MP banka.

„Ég flutti ræðu mína seint um kvöldið og tek fúslega fram að þar var ég þreyttur og reiður vegna linnulausra frammíkalla stjórnarandstöðu, en vil leggja áherslu á að ég kenndi ekki áhrifa af því víni sem ég hafði drukkið fyrr þennan dag. Þess vegna hef ég svarað því neitandi þegar það hefur verið borið upp á mig að ég hafi verið ölvaður þetta kvöld.Eftir á að hyggja voru það engu að síður mistök af minni hálfu að mæta í þingið eftir að hafa bragðað áfengi. Á því biðst ég velvirðingar," segir hann þar meðal annars.