Sigmundur Ernir Rúnarsson er nýr ritstjóri Fréttablaðsins, en hann verður jafnframt aðalritstjóri útgáfufélagsins Torgs ehf. sem rekur DV, Markaðinn og Hringbraut auk Fréttablaðsins. Hann tekur við starfinu af Jóni Þórissyni, sem hefur starfað sem ritstjóri blaðsins síðan 2019. Fréttablaðið greinir frá.

„Þetta er spennandi áskorun og ég þakka traustið sem mér er sýnt. Mitt verkefni verður að efla fréttaþjónustu og dagskrárgerð, hámarka samlegðaráhrif þeirra ólíku miðla sem útgáfufyrirtækið Torg rekur og gera þá að skemmtilegum og eftirsóknarverðum vinnustað," segir Sigmundur Ernir í samtali við Fréttablaðið.

Sigmundur á að baki langan feril í fjölmiðlum. Hann hóf feril sinn í fjölmiðlum hjá Vísi árið 1981 en fór síðar til DV og þaðan til Helgarpóstsins. Árið 1985 hóf hann störf sem þáttastjórnandi hjá Ríkissjónvarpinu.

Hann starfaði hjá Stöð 2 í 14 ár frá 1987-2001, fyrst sem fréttamaður en síðar varafréttastjóri. Þaðan lá leiðin til DV, þar sem hann starfaði sem ritstjóri til ársins 2003. Árið 2005 fór hann aftur til Stöðvar 2, þar sem hann starfaði sem fréttastjóri til 2007 og síðar forstöðumaður fréttasviðs til 2009.

Hann var alþingismaður Norðausturkjördæmis á árunum 2009-2013 fyrir Samfylkinguna. Þar sat hann í fjárlaganefnd, heilbrigðisnefnd, iðnaðarnefnd, utanríkismálanefnd, atvinnuveganefnd og allsherjar- og menntamálanefnd. Frá árinu 2015 og þar til nú starfaði hann hjá Hringbraut sem dagskrárstjóri.

„Þetta hefur verið viðburðaríkur tími og ákaflega skemmtilegur. Hér hef ég kynnst góðu fólki sem ég lít á sem vini mína og saman höfum við komið ýmsu í verk. Ég tók lagapróf fremur seint á ævinni og það stóð aldrei til að staldra lengi við. Nú finnst mér tímabært að leita á önnur mið," segir Jón Þórisson í samtali við Fréttablaðið.