„Ég hef haft gaman af að smíða úti í garði,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 rétt í þessu, en „nú ætla ég að byggja þjóð“.

Sigmundur Ernir, sem var sagt upp á Stöð 2 á dögunum, sagði að nú þyrfti að fara að horfa til uppbyggingar hér á landi og hætta að rífa niður. Stjórnmálamenn þyrftu að horfa til framtíðar og gefa fólki von um að landið komist út úr erfiðleikunum.

Vinsæll og reyndur stjórnmálamaður á borð við Jóhönnu Sigurðardóttur gæti einmitt verið rétti kosturinn til að ná þessu fram.

Sigmundur Ernir sagðist í viðtalinu sjálfur hafa tekið mikið þátt í gagnrýninni umræðu á blogginu en hefði talið að starfs síns vegna hefði verið óheppilegt að hann væri í fremstu röð í mótmælunum.

Sigmundur Ernir sagði ennfremur að hann ætlaði að blanda sér í þjóðmál og gaf sterkt til kynna að hann væri á leið í pólitík. Þó vildi hann hvorki staðfesta það beint né segja á vegum hvaða framboðs.

(Frétt uppfærð kl. 9:39.)