Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kveðst hafa fengið hótanir frá aðilum sem hafi reynt að hafa áhrif á gang mála við áætlanir stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Þetta kemur fram í viðtali við hann í DV .

Í viðtalinu er Sigmundur meðal annars spurður að því hvernig hann taki hinum ýmsu slúðursögum sem gangi um hann í þjóðfélaginu. Þá svarar hann því til að hann hafi ekki látið sögurnar hafa áhrif á sig, en hann hafi samt tekið eftir því að sumir trúi þessum sögum. Segir hann það hluta af stjórnmálataktík að dreifa skipulega sögum um andstæðinginn og það sé í algjörri andstöðu við hugsjónina um það hvernig stjórnmál eigi að virka.

„Ég veit að ákveðnir aðilar sem vildu hafa áhrif á umræðuna út af haftamálunum fóru skipulega að dreifa ýmsum sögum um mig og þá með það að markmiði að reyna að draga úr trúverðugleika mínum og skaða möguleika mína á því að hafa áhrif á gang mála. Og talandi um fjárkúgun og hótanir þá hef ég meira að segja fengið hótanir úr þeim ranni,“ segir Sigmundur.

Aðspurður hvers eðlis hótanirnar hafi verið segir hann: „Þess eðlis að ríkisstjórnin væri að ganga þannig fram gagnvart þessum aðilum að við myndum fá að gjalda þess fylgdum við þessari stefnu áfram. Menn væru í aðstöðu til að skaða okkur verulega. Það er mjög hættulegt fyrir stjórnmálin ef það er orðin baráttuleið að leggjast í persónuofsóknir og hóta mönnum og telja það bestu leiðina til að ná sínu fram.“