Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur sent Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, bréf vegna ástandsins á Gaza. Í bréfinu lýsir Sigmundur Davíð áhyggjum sínum af stöðu mála á Gaza þar sem fjöldi fólks hefur látið lífið að undanförnu.

Sigmundur Davíð fordæmir í bréfinu allt ofbeldi, óháð því hver beitir því, og kallar eftir tafarlausu vopnahléi svo hægt sé að aðstoða nauðstadda. Engu að síður er réttur Ísraels til sjálfsvarnar viðurkenndur sé hann í samræmi við alþjóðalög.

Forsætisráðherra fer þess á leit að Ísrael axli ábyrgð á stöðu mála og hætti hernaðaraðgerðum sínum á Gaza sem séu mjög umfangsmiklar og veki áleitnar og alvarlegar spurningar um virðingu fyrir mannréttindum og skuldbindingar Ísraels á alþjóðavettvangi. Hernaðaraðgerðir eigi ekkert skylt við varanlega lausn í deilu Ísraels og Palestínu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef forsætisráðuneytis.