Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur þegið boð Barack Obama, forseta Bandaríkjanna um að sækja leiðtogafund Norðurlandanna og Bandaríkjanna sem haldinn verður í Hvíta húsinu um miðjan maí nk. Þetta verður opinber heimsókn leiðtoga Norðurlandanna með viðhafnarkvöldverði þeim til heiðurs.

Þessi viðburður fylgir í kjölfar fundar leiðtoga Norðurlandanna og Bandaríkjanna sem haldinn var í Svíþjóð árið 2013, en þá bauð þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar til fundarins í tilefni af tvíhliða heimsókn forseta Bandaríkjanna til Svíþjóðar.

Áformað er að ræða á áframhaldandi samvinnu Bandaríkjananna og Norðurlandanna á ýmsum sviðum alþjóða- og utanríkismála. Í tilkynningu um fundinn segir að leiðtogarnir munu meðal annars ræða baráttu gegn hryðjuverkum og aðgerðir gegn ofbeldisfullri öfgahyggju, alþjóðlegt heilbrigðisöryggi, umhverfismál, samstarf varðandi málefni norðurslóða, öryggismál, þróunar- og mannúðarmál auk málefna flóttamanna.