„Án sitjandi ríkisstjórnar hefði ekki verið lagt í neinar almennar aðgerðir fyrir þau heimili sem hafa verðtryggð húsnæðislán,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann gagnrýndi fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og VG og andstöðu hennar gegn áformum núverandi ríkisstjórnar á verðtryggðum húsnæðislánum í stefnuræðu sinni á Alþingi í dag. Sigmundur benti á að rúmlega 69 þúsund heimili hafi sótt um höfuðstólsleiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána og óskað eftir því að nýta séreignasparnað sinn til að greiða inn á lánin. Við það lækki mánaðaleg greiðslubyrði þeirra og auki ráðstöfunartekjurnar á sama tíma.

„Svo víðtæk þáttaka hlýtur að vera þingmönnum stjórnarandstöðunnar umhugsunarefni. Þegar haft er í huga hversu hatrammlega þau börðust gegn þessum víðtækustu aðgerðum til hjálpar heimilunum eftir eifnahagshrunið og greiddu meira að segja atkvæði gegn þeim á Alþingi,“ sagði Sigmundur og benti á að leiðréttingin snúist um sanngirni til handa heimilum með slík lán sem ekki hlutu aðstoð þegar ráðist var í miklar afskriftir hjá hluta áhættusækinna fyrirtækja.