Sigmundur Davíð Gunnlaugsson seldi eiginkonu sinni helmingshlut í Wintris Inc. á einn Bandaríkjadal þann 31. desember 2009, daginn áður en skattalagabreytingar sem sett voru til höfuðs aflandsfélögum gengu í gildi. Því þurfti hann engar upplýsingar að gefa um félagið. Í gögnum Mossack Fonseca, sem stóð að stofnun félagsins fyrir hönd Landsbankans í Lúxembúrg, er ekkert að finna um að eignarhaldinu hafi verið breytt vegna mistaka í skráningu. Greint var frá þessu í Kastljósi.

Í Kastljósinu í kvöld var birt viðtal fréttamanns sænska ríkisútvarpsins við Sigmund, þar sem fréttamaðurinn spurði Sigmund óvænt um Wintris. Sigmundur var fyrst spurður almennt um hvað honum þætti um skattaskjól og sagði Sigmundur að á Íslandi væri lögð mikil áhersla á að allir borgi sinni skerf. Slíkt væri spurning um að varðveita þau gildi sem eru við líði í okkar heimshluta.

Sigmundur var síðan spurður hvort hann hefði einhver tengsl við aflandsfélög og sagði hann að íslensk fyrirtæki sem hann hafi starfað hjá hafi haft tengsl við aflandsfélög. Hann hafi alltaf gefið upp sínar eignir til skatts. Þetta væri óvenjuleg spurning fyrir íslenskan stjórnmálamann að fá, næstum eins og að vera ásakaður um eitthvað.

Eftir að sænski fréttamaðurinn spurði Sigmund út í Wintris gekk Jóhannes Kr. Kristjánsson, fréttamaður hjá Reykjavík Media, inn í herbergið þar sem viðtalið fór fram og spurði forsætisráðherra hvers vegna hann hafi ekki sagt frá félaginu. Sigmundur sagði að félagið hafi komið fram á skattskýrslunum hans og hafi gert frá upphafi, en að hagsmunaskráning þingmanna hafi ekki náð til félagsins. Bankinn hafi sett upp félagið.

Sigmundur sagði fréttamennina hafa platað hann í viðtal. Hann spurði Jóhannes hvaða atriði hann væri að reyna að búa til, áður en hann yfirgaf viðtalið.