Stjórnvöld eiga ekki í neinum viðræðum við kröfuhafa bankanna um að nýta það svigrúm sem myndi skapast við uppgjör þrotabúanna til að fjármagna almennar skuldaniðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segist í samtali við netmiðilinn Kjarnann, sem kom út í fyrsta sinn í dag, telja ástæðu til að vera bjartsýnn varðandi uppgjörin. Kveðið er á um svigrúmið í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar.

„Kröfuhafarnir hafa fylgst vel með þróun mála hérlendis. Að sumra mati hafa þeir reynt að hafa áhrif á þróun mála. Það eru sameiginlegir hagsmunir kröfuhafa og íslenskra stjórnvalda að leysa þetta mál þannig að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Þess vegna finnst mér tilefni til að gera ráð fyrir því að kröfuhafarnir muni vilja leggja fram lausn. Þeir þurfa að sýna frumkvæði í þessu. Ég geri ráð fyrir því að kröfuhafarnir séu að meta stöðu sína og hvað sé raunhæft. Vonandi gerist það fljótlega,“ segir hann.