Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er kominn til Svíþjóðar þar sem hann mun funda með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og öðrum forsætisráðherrum Norðurlandanna auk forseta Finnlands. Það var  Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem átti fund með forsetanum og ákvað að bjóða hinum forsætisráðherrunum með til fundarins.

Með Sigmundi Davíð í för eru Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður hans , og Jörundur Valtýsson, ráðgjafi forsætisráðherrans í utanríkismálum.  Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu verður Sigmundur Davíð kominn til starfa í ráðuneytinu aftur á föstudaginn.

Fundurinn i kvöld fer fram í bústað Reinfeldts. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, sagðist í samtali við Viðskiptablaðið ekki búast við því að fundurinn yrði buinn fyrr en hálftíu að sænskum tima.