Niðurstaða skuldaleiðréttingarinnar, sem kynnt var í dag, er sú að þeir sem nýta öll úrræði stjórnvalda munu fá lækkun íbúðaskulda umfram 4,0% verðbólgu á árunum 2008 og 2009, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Sagði hann að upphafleg áætlun hafi gert ráð fyrir því að leiðrétt yrði fyrir verðbólgu umfram 4,8%, en lækkunin hafi á endanum orðið meiri.

Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði á kynningarfundi að bætt staða ríkisfjármála hafi gert það kleyft að að fara hraðar í þessar aðgerðir en gert var ráð fyrir áður. Af heildarfjármagninu sem átti að fara í þetta verkefni var of stór hluti að fara í vaxtakostnað, að sögn Bjarna. Dregið verði úr þessum kostnaði með því að hraða ferlinu og í fjáraukalagafrumvarpi er lagt til að fara hraðar í aðgerðirnar en áður var gert ráð fyrir. Þetta leiði til þess að fjármunirnir nýtast betur í þágu þeirra sem aðgerðinni er ætlað að koma að gagni.

Bjarni sagði að í kjölfar bankahrunsins hafi skuldastaða heimilanna sem hlutfall af VLF nálgast 130%. Þetta skuldaviðmið skipti máli og á alþjóðlega vísu þyki 100% skuldahlutfall hættumerki. Bjarni segir því að ánægjulegt sé að sjá að aðgerðin muni leiða til þess að skuldahlutfallið fara undir 100% í árslok, eða um 95%.