Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir það ekkert launungarmál að honum hafi þótt undarlegt að fylgjast með því með hvaða hætti RÚV hefur nálgast Wintris-málið. Umfjöllunin öll hafi haft meira yfirbragð þess að segja sögu eða hanna atburðarás en að greina frá staðreyndum.

Þetta kemur fram í pistli á vefsíðu hans . Pistillinn birtist sama dag og RÚV birtir sérstakan Kastljós-þátt sem unninn er upp úr gagnaleka, sem meðal annars er sagður sýna fram á tengsl Sigmundar við félag á Bresku-Jómfrúareyjum. Á vefsíðu RÚV segir að um sé að ræða mesta gagnaleka sem um getur í heiminum. Þátturinn verður sýndur klukkan 6.

Álitsgjafarnir vægast sagt neikvæðir

Sigmundur segir að bankinn hafi stofnað fyrir konu sína félag og skráð það, eins og títt var á sínum tíma, í landi sem gerir út á að halda utan um fyrirtæki fyrir fólk. Hins vegar sé félagið og eignir þess skattlagðar á Íslandi. Sú stefna sem Sigmundur setti á dagskrá hafi orðið til þess að konan hans hafi þurft að taka á sig enn meira tap umfram m.a. kröfuhafa sem áttu innistæður. Loks hafi komið í ljós að konan hans hafi forðast að skapa árekstra við stjórnmálastörf Sigmundar með því að nýta meðvitað ekki möguleika á að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta á Íslandi.

Sigmundur segir að þeir sem vilji helst líta framhjá þessum grundvallarstaðreyndum séu einmitt hinir sömu og veittu honum mesta mótspyrnu í baráttunni fyrir því að vogunarsjóðir yrðu látnir leggja sitt af mörkum. Sigmundur talar síðan um umfjöllun RÚV um málið, og segir að þeir sem RÚV hefur kallað til sem álitsgjafa hafi verið vægast sagt neikvæðir í hans garð og ríkisstjórnarinnar. RÚV hafi ekki gert nokkra grein fyrir tengslum þeirra.

Kastljósþátturinn sem sýndur verði í kvöld muni ryðja úr vegi öðrum þætti sem gerður hafi verið að pólitískum áróðursþætti í seinni tíð, Stundinni okkar.

Segir kröfuhafa hafa haft aðgengi að Sigrúnu

Sigmundur Davíð fjallar síðan um pistil Sigrúnar Davíðsdóttur, fréttamanns og pistlahöfundar hjá RÚV, og segir að í pistlinum hafi verið gefið í skyn að ekki hefðu verið greiddir skattar af eignum eiginkonu hans. Sigmundur gagnrýnir pistil Sigrúnar, og segir:

Árum saman, allt fram að hruni sérhæfði Sigrún Davíðsdóttir sig í að skrifa lofgreinar um útrás íslensku bankanna og annarra fyrirtækja. Hún var meira að segja, að eigin frumkvæði, fengin til að skrifa skýrslur um snilldina til notkunar í áróðursskyni. Fljótlega eftir hrun varð hún að mati margra okkar í InDefence einn ötulasti talsmaður breskra og hollenskra stjórnvalda í Icesavedeilunni.

Næst sérhæfði hún sig í að verja vogunarsjóðina og gera mig og aðra sem vildum að þeir legðu peninga til íslensks samfélags tortryggilega. Í greinargerð sem skrifuð var fyrir fulltrúa vogunarsjóðanna var bent á að gott aðgengi væri að Sigrúnu. Við vorum svo upplýst um að fulltrúar kröfuhafarnir og ráðgjafar þeirra hafi sagt að það þyrfti ekki einu sinni að greiða henni fyrir þessa þjónustu, svo einörð væri hún í sinni afstöðu.

Alltaf lagt sitt af mörkum

Sigmundur lýkur pistli sínum með því að segja að kona sín hafi alltaf lagt sitt af mörkum til íslensks samfélags og að hún hafi tapað á þeirri leið sem Sigmundur hafi boðað til að koma til móts við skuldsett heimili og verja efnahagsstöðugleika.

Laun hennar eru þau að RÚV með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar, eftir skrif um bankaútrásina, Icesave og vogunarsjóðina, birtir frétt með mynd af henni undir fyrirsögninni: „Wintris-málið: „Íslands sjálftökumenn“

Svo er ég spurður af hverju ég sé ekki búinn að fara í viðtal á RÚV.